140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

menningarminjar.

316. mál
[17:17]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi fyrst og fremst koma hingað upp til að þakka hv. framsögumanni Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir afar vandaða og góða vinnu við meðferð þessa máls.

Hér er mikill bálkur á ferðinni sem er hryggjarstykkið í frumvörpum sem lögð voru fram á fyrra þingi um minja- og safnamál. Niðurstaða menntamálanefndar, sem þá var, var að taka þetta frumvarp til nánari efnismeðferðar enda ljóst að það væri viðameira og flóknara í meðförum en hin frumvörpin sem fjölluðu um safnamál, um Þjóðminjasafn Íslands og skil menningarverðmæta til annarra landa.

Ég held að niðurstaða nefndarinnar hafi verið rökrétt í ljósi þess tímaramma sem hún hafði. Það er afar mikilvægt að ná að loka þessari keðju með því að afgreiða þetta frumvarp til laga um menningarminjar sem hefur þann megintilgang að einfalda stjórnsýsluna í þessum málaflokki. Ný stofnun, Minjastofnun, tekur við stofnanahlutverki Fornleifaverndar ríkisins og húsafriðunarnefndar og vonast ég eftir því að það verði til farsældar í þessum málaflokki.

Ég held líka að það hafi verið góð ákvörðun hjá nefndinni á sínum tíma að færa gildistíma þessara laga aftur um eitt ár. Það hefur gefið fagfólki í þessum geira meira ráðrúm til að undirbúa sig fyrir komandi breytingar. Þau lög sem þegar hafa verið samþykkt á þinginu tóku ekki gildi og taka ekki gildi fyrr en um næstu áramót, 1. janúar 2013, sem og lögin um menningarminjar ef þetta frumvarp verður samþykkt á þingi. Gott væri ef við gætum tekið upp það vinnulag í fleiri málum að gefa stofnunum stjórnsýslunnar rýmri tíma til að aðlaga sig breytingum þegar þær eru svo umfangsmiklar sem raun ber vitni hér.

Hv. framsögumaður fór afar vel og skilmerkilega í gegnum ákvæði frumvarpsins. Ég ítreka þakkir til hennar fyrir góða vinnu og tek undir að það er sjálfsagt að svara kalli frá fornleifafræðingum og samtökum þeirra um að fá að gera nánar grein fyrir afstöðu sinni milli 2. og 3. umr. Ég þakka síðan fyrir góða vinnu í nefnd og þá samstöðu sem ríkir meðal fulltrúa ólíkra flokka um afgreiðslu málsins.