140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

háskólar.

468. mál
[17:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. framsögumanni Skúla Helgasyni fyrir nefndarálitið og fyrir utanumhald um þetta mál og tek undir flest allt það sem fram kom í máli hans.

Mig langar aðeins að skerpa á því hversu miklu máli það skiptir í nefnd eins og allsherjar- og menntamálanefnd þegar um er að ræða mikilvæg mál eins og þetta, um háskóla, eða hvort um er að ræða frumvarp um menningarminjar eða myndlistarlög, um það sem sameinar land og þjóð, að ólíkir pólitískir flokkar og einstaklingar innan þeirra komi sér saman um að vinna verkefnin óháð pólitískum línum. Það er akkúrat það sem gerðist í þessu máli um háskólana þar sem við erum að breyta lögun nr. 63/2006. Það var góð samvinna í nefndinni. Eins og fram kom í máli hv. þm. Skúla Helgasonar stendur nefndin einhuga að málinu.

Ég legg áherslu á, sem ég held að geti skipt máli í náinni framtíð, að í nefndinni var mikið rætt um skipulag háskólamenntunar í heild og horft til þess hvort og hvernig samvinnan gæti verið, hvernig verkaskipting ætti að vera og hvers konar háskóla við vildum sjá. Í framhaldi af því leggur nefndin til að ráðherra skipi nefnd til að gera tillögur í frumvarpsformi um leiðir til að auka samvinnu, verkaskiptingu og sameiningu háskóla á Íslandi þar sem skoða eigi heildarumgjörð háskólakennslu, rekstrarform, fjármögnun, fjölda stofnana og lagaumgjörð þeirra með það að markmiði að styrkja og nýta sem best þá styrkleika sem eru í hverjum háskóla og tryggja samstarf þar á milli. Ég held að það sé mjög mikilvægt, virðulegur forseti, einmitt á þeim tímum. Hér erum við 320 þúsund með sjö starfandi háskóla og spurning er hvort ekki megi nýta jafnt fjármagn sem mannauð betur í þágu þeirra sem þar stunda nám. Því fagna ég sérstaklega því bráðabirgðaákvæði sem nefndin kom sér saman um sem felur í sér að ráðherra skipi nefnd til að fara yfir þessa þætti og skila síðan í frumvarpsformi hugmyndum eða drögum um samvinnu, sameiningu til styrktar háskólasamfélagi á Íslandi.