140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

lokun útibúa Landsbankans á landsbyggðinni.

[10:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, þann 24. maí síðastliðinn tilkynnti Landsbankinn um hagræðingaraðgerðir sem fela meðal annars í sér sameiningu og lokun útibúa á Austurlandi, Vestfjörðum, Snæfellsnesi og í Reykjavík og sameiningu deilda í höfuðstöðvum bankans. Þess má geta að þessi hagræðing nær aðallega til útibúa sem Landsbankinn yfirtók hjá Sparisjóði Keflavíkur fyrir rúmu ári. Bankinn áætlar að um 400 millj. kr. sparist á ári með þessum breytingum en slíkar hagræðingarákvarðanir eru algjörlega á forræði stjórnar hans, ekki eigendanna eins og lög gera ráð fyrir og eins lög um hlutafélög og eigendastefna ríkisins. Í eigendastefnunni er skýrt tekið fram að Bankasýsla ríkisins sem fer með eignarhlutinn skuli ekki taka þátt í daglegum rekstri banka og sparisjóða.

Eftir hrun hefur verið á það bent að þörf sé á hagræðingu. Við lokun þessara útibúa fer þjónustan auðvitað niður en verra er að þarna afleggjast mörg störf. Vissulega finnst mér það ekki skemmtilegt, ég er ekki ánægð með það. Mér þykir verst að bankinn skuli einnig loka á stöðum þar sem um erfiða fjallvegi er að fara. Ef ríkið vill hins vegar hafa áhrif á starfsemi bankans verður það að gerast í gegnum lög og samninga og eigendastefnu. Þá þurfum við að fara í þá vinnu að breyta því en það er ekki skynsamlegt skref hjá fjármálaráðherra að fara að beita sér gegn einstökum ákvörðunum stjórnarinnar, það væri reyndar ekki samkvæmt lögum sem hv. þingmenn settu hér sjálfir og (Forseti hringir.) byggðu þar eldvegg á milli eigenda og rekstraraðila.