140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

lokun útibúa Landsbankans á landsbyggðinni.

[10:44]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. fjármálaráðherra skilji ekki hlutverk sitt í þessum efnum. Þessar breytingar eru miklu meiri en einhverjar almennar breytingar í rekstri Landsbankans. Þetta er þjónustustofnun um allt land, verið er að skera niður og loka þjónustustöðvum, sem eru mikilvægur hlekkur í heildarstarfi og þjónustu og búsetu á viðkomandi svæðum, með þeim hætti að það er eins og verið sé að hefja stríð. Það er tilkynnt um aðgerðirnar með tveggja eða þriggja daga fyrirvara, rétt fyrir hvítasunnu. Það eru ekki siðleg vinnubrögð. (Utanrrh.: Þetta er til skammar.) Það er til skammar, eins og utanríkisráðherra segir, og meira en það, í eigendastefnu bankans stendur meðal annars að byggja skuli upp heilbrigt og öflugt fjármálakerfi sem þjónar hagsmunum íslensks samfélags. (Forseti hringir.) Þá skuli líka tryggja góða þjónustu við heimili og fyrirtæki hvarvetna í landinu. Var það borið undir ráðherrann að þessi niðurskurður (Forseti hringir.) á þjónustu væri til að tryggja þjónustu við heimili og fyrirtæki á viðkomandi svæðum? Nei. Það er ekki mitt mat og ég tel að (Forseti hringir.) ráðherra hafi ekki gert sér grein fyrir ábyrgð sinni þarna í þessum efnum og að henni beri nú þegar að grípa til aðgerða (Forseti hringir.) hvað þetta varðar.