140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjald og forsendur fjárlaga.

[11:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda áfram umræðu um veiðigjald og áhrif þess á forsendur fjárlaga. Í því skjali sem kemur frá fjárlagaskrifstofunni og fylgir frumvarpi um veiðigjöld er fjallað um þetta. Þar er meðal annars sagt að afkoma í sjávarútvegi sé verulega sveiflukennd og þess vegna megi búast við að tekjur af veiðigjöldum verði mismiklar eftir árum, en það kemur líka fram að reiknað sé með 11 milljörðum í tekjum á næsta fjárlagaári. Verði aflabrögð, verð á mörkuðum og gengi krónunnar svipuð og á síðustu árum má gera ráð fyrir að á næstu árum geti veiðigjöld skilað um og yfir 20 milljörðum í tekjur á ári í ríkissjóð í næstu framtíð, segir í þessu áliti.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra, ekki síst í ljósi umsagnar Alþýðusambands Íslands, hvort stefna ríkisstjórnarinnar sé að viðhalda svo lágu gengi að það verði möguleiki að útgerðin geti skilað þessu. Er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að gengið styrkist um 20%?

Það hefur líka komið fram að hér er lagt af stað með veiðigjöld sem nema frá 50% skatti sem mun á nokkrum árum enda í 70% öfgaskatti; 15 milljarðar á næsta ári og mun enda í 25 milljörðum þegar ívilnanirnar hafa verið dregnar frá. Er það eðlilegt og hóflegt gjald, eða eru þeir 11 milljarðar sem reiknað var með í fjárlagafrumvarpinu og í forsendum fjárlaga hóflegra gjald að mati ráðherrans? Hversu miklu reiknar ráðherrann með í framtíðarspám sínum að veiðileyfagjaldið skili?

Þá vil ég einnig spyrja í kjölfarið á þeirri umræðu sem hér var áðan um Landsbankann og afleiðingarnar af auknum afskriftum upp á 31 milljarð kr. Ég vil fá skýrt svar og ítreka þá spurningu sem kom fram áðan hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni: Hafa þær alvarlegu afleiðingar sem þetta hefur á Landsbankann og möguleika hans á að greiða arð á næstu árum, verið skoðaðar í ráðuneytinu?