140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég kem upp til að taka undir að það er forkastanlegt að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki vera í þinginu þegar við förum yfir þessi mikilvægu mál sem varða þjóðarbúið ákaflega miklu. Málið um veiðigjöldin sem stendur til að ræða í dag er annað tvíburafrumvarpa ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og skattlagningu á því og ég tek undir að það er augljóst að þessi tvö mál hanga verulega saman. Veiðigjöldin hanga á því hvernig menn ætla að leysa hitt málið. Ég vil koma því á framfæri við hæstv. forseta að ef meiningin er að klára veiðigjaldamálið áður en hitt frumvarpið liggur fyrir er það algerlega óaðgengilegt, því að þessi mál hanga saman. Það hefur komið fram í atvinnuveganefnd, og er rétt að upplýsa hæstv. forseta um það, að skynsamlegast væri að ýta frumvarpinu um stjórn fiskveiða til hliðar. Í því eru einfaldlega allt of margir hlutir óræddir. (Forseti hringir.) Það er óskynsamlegt, frú forseti, að ræða hér eingöngu veiðigjaldið án þess að niðurstaða í hinu málinu liggi fyrir.