140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að svara hv. þm. Kristjáni L. Möller. Nei, stjórnarandstaðan er ekki að fara fram á að þessi tvö mál verði rædd saman. Stjórnarandstaðan er að fara fram á að bæði málin liggi fyrir og verði komin úr nefnd áður en umræður um þau hefjast. Þessi mál tengjast óneitanlega og það er ekki stjórnarandstaðan sem er að benda á það, heldur sérfræðingar sem nefndin hefur kallað til og það veit þingmaðurinn fullvel.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði hér í morgun að gera þyrfti breytingar á frumvarpinu, hann teldi það ekki fullnægjandi eins og það er núna með þeim breytingartillögum sem kynntar eru.

Mig langar líka til að taka undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni um fjarveru hæstv. forsætisráðherra sem við vitum að fjarstýrir þinginu þrátt fyrir góða viðleitni og vinnu hæstv. forseta við að reyna að halda starfsáætlun. Í dag er 1. júní, starfsáætlun þingsins er fallin úr gildi.

Að auki tek (Forseti hringir.) ég undir það að við höfum í þessari viku verið á harðahlaupum eftir hæstv. ráðherrum, sérstaklega hæstv. velferðarráðherra, um sérstakar umræður (Forseti hringir.) sem hefur ekki tekist að koma á dagskrá. Ég vek athygli á því að okkur þingmönnum er gert algjörlega ókleift að (Forseti hringir.) sinna eftirlitsskyldu okkar ef sérstakar umræður eru ekki settar á.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörk.)