140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hér hafa tveir hæstv. ráðherrar komið upp og fullyrt að við eigum ekkert að hafa sérstakar áhyggjur af því hvort ráðherrar mæti hér til fundar vegna þess að málin séu komin á forræði þingsins. Auðvitað ætti það að vera þannig að málin væru á forræði þingsins en hæstv. forsætisráðherra hefur ekkert farið leynt með það að hún ætlar að ráða þessu máli, niðurstöðu þessa máls og hvernig það er unnið í þinginu. Hæstv. forsætisráðherra hefur hvað eftir annað birst í fjölmiðlum og hótað því að þingið sitji hér eins lengi og þarf til að klára þetta mál á nákvæmlega þann hátt sem hæstv. forsætisráðherra ætlast til. Það hlýtur því að vera eðlileg krafa af hálfu þingsins að hæstv. forsætisráðherra komi hingað og svari fyrir þetta mál sitt.

Hæstv. utanríkisráðherra segir að við eigum að gefa hæstv. forsætisráðherra sérstök grið af því að ráðherrann sé úti að semja við útlendinga, meðal annars um sjávarútvegsmál. Ef hæstv. forsætisráðherra, sem stendur fyrir því máli sem til stendur að ræða hér í dag og þeim breytingum sem ríkisstjórnin ætlar sér að gera á fiskveiðistjórnarkerfinu, er farin að semja við útlendinga um sjávarútvegsmál, þá fyrst þurfum við að hafa áhyggjur og kalla hæstv. forsætisráðherra heim.