140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[11:41]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um ákveðnar breytingar sem lagðar eru til á kostnaðarþátttöku sjúkratryggðra í lyfjakostnaði sem er mjög mikilvægt skref í því að jafna heilbrigðiskostnað landsmanna. Við erum að búa til sanngjarnt kerfi sem miðar að því að koma til móts við þá sem þurfa að nota mikið af lyfjum og þurfa því að bera mikinn lyfjakostnað og gert er ráð fyrir því að einungis verði eitt kerfi við lýði.

Hér liggur fyrir breytingartillaga frá meiri hluta velferðarnefndar þess efnis að ákveðinn efnisliður falli úr lögunum og er þar með verið að koma til móts við athugasemdir minni hluta velferðarnefndar til að sú samstaða sem verið hefur um þetta mál haldist. Þetta ákvæði gengur út á það að þeir sem fá greiddar fullar atvinnuleysisbætur njóti sömu kjara og launþegar en ekki eins og elli- og örorkulífeyrisþegar.

Ég vona (Forseti hringir.) að þingheimur samþykki þetta mál því að þetta er mikið og gott mál fyrir þá (Forseti hringir.) sem bera mikinn lyfjakostnað.