140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[11:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég stend að nefndarálitinu með öðrum fulltrúum í minni hluta velferðarnefndar, hv. þingmönnum Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Unni Brá Konráðsdóttur, og tek undir það sem hún sagði í ræðustól varðandi hugmyndafræðina sem liggur að baki þessa frumvarps.

Þetta er til bóta en ekki er gengið nógu langt. Taka þarf tillit til annars kostnaðar í heilbrigðiskerfinu og vil ég sérstaklega taka upp hugmyndir um hreyfiseðla. Margoft hefur verið sýnt fram á að hreyfing skilar umtalsverðum ábata, bæði fyrir sjúklinga og fyrir okkur sem fjármögnum heilbrigðiskerfið. Það er mun ódýrari leið að grípa til forvarna en bregðast við þegar fólk er orðið veikt. Mér þykir leitt að ekki skyldi vera möguleiki á því að gera hreyfiseðlum jafnhátt undir höfði og lyfjum í þessu frumvarpi. Ég tek hins vegar fram að (Forseti hringir.) það var vilji hjá meiri hluta velferðarnefndar að breyta þessu. Ég vona svo sannarlega að við fáum tækifæri til að gera sem fyrst þær breytingar á greiðsluþátttökukerfinu sem rætt var um.