140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[12:10]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er gleðidagur í dag þegar við greiðum atkvæði um þetta mikilvæga mál þar sem sérstök áhersla er lögð á það í gegnum allan lagabálkinn að hagsmunir barnsins skuli hafðir að leiðarljósi og það séu hagsmunir barnsins að fá að umgangast báða foreldra sína eins og nokkur kostur sé. Það er mikil áhersla lögð á sættir, á ráðgjöf og fræðslu og þetta er mikill áfangasigur.

Með frumvarpinu er lögleidd heimild dómara til þess að dæma sameiginlega forsjá sem hefur verið mörgum, þar á meðal Samfylkingunni, mikið keppikefli. Ég held að hér séum við að stíga mjög farsælt skref. En barnalögin eru þess eðlis að þau þurfa að vera í stöðugri þróun og ljóst er að það þarf að skoða fleiri ákvæði og fleiri kafla. Vonandi munum við fara í þá vinnu næsta vetur. Ég vona svo sannarlega að sú góða samstaða sem skapaðist í nefndinni um þennan málaflokk endurspeglist hér í þingsal á eftir og við samþykkjum allar greinar, algjörlega sammála.