140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[12:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég styð þá hugmyndafræði sem hér er lagt upp með, þ.e. að sáttameðferðin sé aðalmálið og verði aðalleiðin. Henni þarf að fylgja fjármagn, þetta er dýr leið, og ég tel að hana hefði átt að taka alla leið og styð því ekki þá breytingartillögu sem meiri hluti nefndarinnar leggur til um að dómari fái heimild til að dæma sameiginlega forsjá, og ég mun gera grein fyrir því nánar hér á eftir.

Hagsmunir barnsins eru leiðarljósið í breytingum á þessu frumvarpi og það er vel. Það hefði mátt taka það aðeins lengra með því að veita heimild til að skipa börnum talsmann í forsjármálum og ég vonast til þess að Alþingi muni gera það við næstu breytingar á barnalögum. Ég vil koma því enn og aftur á framfæri að ég tel að frumvarp til laga um breytingar á barnalögum eigi heima í allsherjarnefnd vegna þeirra réttarfarsatriða sem hér er um að (Forseti hringir.) ræða frekar en í velferðarnefnd.