140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[12:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð þær breytingartillögur sem velferðarnefnd leggur til í þessu máli. Frumvarpið sem kom inn frá hæstv. innanríkisráðherra var að mínu mati að mörgu leyti mjög gott, sérstaklega hvað varðar áherslu þar á sáttameðferð en það má oft bæta hlutina. Hér leggur velferðarnefnd til mjög mikilvæga og stóra breytingu á barnalögum og hún byggist á 30 ára reynslu nágrannaþjóðanna af því að dómari hafi heimild til að dæma sameiginlega forsjá. Í breytingartillögum okkar er tekið sérstaklega fram til hvers dómari þarf að taka tillit í þeim efnum.

Ég held að við séum að taka hér stórt og mikilvægt skref en um leið reynum við að gæta að því að farið verði með þessa heimild eins vel og mögulegt er og ég treysti dómurum landsins fyllilega til þess að gera það.