140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[12:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Þó nokkrar breytingartillögur velferðarnefndar snúast um það að bæta inn orðunum „og lögheimili“ á nokkrum stöðum í frumvarpinu. Hér vorum við að samþykkja eina slíka breytingu. Hér innleiðum við heimild dómara til að úrskurða sérstaklega um það hvar lögheimili barns eigi að vera og er þá fyrir hendi heimild foreldra til þess að óska þess að slík mál séu höfðuð. Oft er það meira ágreiningsmál milli foreldra hvar barn á að hafa lögheimili en forsjáin sem slík. Ég tel það mikla réttarbót og mikið framfaraskref að við skulum stíga þetta skref en hér er byggt á vinnu sem þegar hefur farið fram. Nefnd á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins útfærði þessa hugmynd á sínum tíma og er hér byggt á þeirri vinnu.