140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[12:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan er sáttameðferðin aðalmálið og mun vonandi hafa í för með sér að í flestum tilfellum verði það samkomulag milli foreldra að forsjá verði sameiginleg. Ég hef trú á því. Sameiginleg forsjá gengur út á það að foreldrar taka þá sameiginlega allar þær meiri háttar ákvarðanir er varða hagsmuni barnsins. Ég styð ekki að dómari fái heimild til að dæma sameiginlega forsjá vegna þess að ég tel það ekki fara saman við hugmyndina um sameiginlega forsjá og grundvöllinn að sameiginlegri forsjá. Ég tel að þessi heimild geti haft neikvæð áhrif á hið mikla vægi sem sáttameðferðin á að hafa, bæði hvað varðar þá fjármuni sem ríkisvaldið og Alþingi er tilbúið til að leggja í þá meðferð og jafnframt að það verði frekar látið reyna á það fyrir dómi hvort sameiginleg forsjá verði dæmd en að sáttameðferðin muni leiða það í ljós, sem er mun betri og farsælli leið.