140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[12:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mér sérstakt fagnaðarefni að þessi breytingartillaga skuli vera lögð fram og að þingheimur sé í þann veg að samþykkja hana. Ég er algerlega ósammála því sem haldið hefur verið fram að þessi heimild muni á einhvern hátt rýra gildi sameiginlegrar forsjár. Þvert á móti mun hún auka á væntingar um að foreldrar standi saman um uppeldi barna sinna. Hún mun hafa góð áhrif í jafnréttislegu tilliti þar sem feður munu búa við þau sjálfsögðu réttindi að komið geti til dómaraúrskurðar og það mun að sjálfsögðu gera ríkari væntingu til þeirra um að taka ábyrgð á uppeldi barna sinna með nákvæmlega sama hætti og sameiginleg forsjá hefur almennt haft jákvæð áhrif, hún hefur aukið á ábyrgð beggja foreldra á uppeldi barna sinna þrátt fyrir miklar hrakspár í upphafi. Nú fetum við sömu leið og hin Norðurlöndin og er það mikið fagnaðarefni.