140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[12:42]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég veit að nefndin hefur unnið mikið að þessu máli og það er ekki nýtt á þinginu. Mér kemur hins vegar á óvart að ekki skuli hafa tekist að lenda málinu, a.m.k. í bili, í meiri sátt við fagfólk og sérfræðinga en raun virðist bera vitni. Ég fagna því þar með að nefndin skuli ætla að taka málið aftur til skoðunar milli 2. og 3. umr.

Ég verð að vísu að gera þá athugasemd að þegar ég les nefndarálitið, sem eru einu beinu heimildirnar sem ég hef um störf nefndarinnar, er ekki minnst á þessar athugasemdir fagfólks og sérfræðinga sem sendu eitt álit. Þær athugasemdir voru ekki að berast núna heldur bárust þær á réttum tíma eftir að málið kom til nefndarinnar. En ég vona að úr verði bætt og við fáum fullnægjandi skýringar á því hvernig þessi mál standa þegar málið kemur til 3. umr. og heiti því að taka þátt í henni en ég hafði ekki vit á að vera hér í gær þegar málið var tekið fyrir.