140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[12:43]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þar sem ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem hefur málið til umfjöllunar hef ég ekki átt kost á því að koma að efnisátektum þess og vil þar af leiðandi koma sjónarmiðum á framfæri hér. Ég tek það skýrt fram að ég tel að frumvarpið sé til bóta og ég lýsi mig sammála þeim meginmarkmiðum sem fram koma í því. Ég fagna því að málið verði tekið inn til nefndar á milli 2. og 3. umr. vegna þess að ég hef áhyggjur af því að fella eigi niður hundrað ára sjálfkrafa vernd menningarminja og fornminja og miða frekar við árið 1900. Ég vara við þessu, sérstaklega í ljósi þess að á 20. öldinni hafa orðið mestu breytingar í búskaparháttum og lífsháttum okkar Íslendinga, sem hefur veruleg áhrif á menningarsögu okkar og minjavernd. Ég vil þar af leiðandi fá að beina því til nefndarinnar að hugleiða einhverja möguleika til að koma til móts við sjónarmið í þessu, jafnvel þannig að hundrað ára verndin taki sjálfkrafa gildi en (Forseti hringir.) það sé síðan hægt að aflétta henni að undangengnu sérstöku mati. Þetta eru mín tilmæli til nefndarinnar en ég þakka henni fyrir hennar störf.