140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

myndlistarlög.

467. mál
[12:49]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða samvinnu og samstöðu í þessu máli en hér er í fyrsta skipti mótuð heildarumgjörð um skipan myndlistarmála og styrkveitingar ríkisins við málaflokkinn. Frumvarpið kemur í stað laga um Listasafn Íslands, sem er höfuðsafn á sviði myndlistar, og eins um Listskreytingasjóðs ríkisins. Myndlistarráð og Myndlistarsjóður Íslands eru nýmæli. Myndlistarráði er ætlað að vera ráðherra til ráðgjafar og stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og annast úthlutun úr Myndlistarsjóði, en hlutverk sjóðsins er að veita fjárhagslegan stuðning til verkefna á sviði myndlistar.

Ég tel að við séum hér að stíga mikið framfaraskref og stuðla að því að myndlistin standi jafnfætis öðrum listgreinum hvað varðar möguleika á stuðningi við listsköpun.