140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

háskólar.

468. mál
[12:55]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er á ferð afar mikilvægt frumvarp um háskóla sem felur í sér ýmsar umbætur, eins og ákvæði um fræðilegt sjálfstæði háskólakennara, að krafa um doktorspróf verði meginregla gagnvart prófessorum, dósentum, lektorum og sérfræðingum í háskólum, ákvæði um aukinn rétt fatlaðra nemenda og nemenda með sérstaka námsörðugleika og svo mætti áfram telja. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd stendur sameinuð að nefndaráliti og ýmsum breytingartillögum á frumvarpinu sem flestar eiga það sammerkt að þar er reynt að standa vörð um ákvæði 1. gr. frumvarpsins um sjálfstæði háskólanna til að ráða skipulagi starfseminnar.

Eins og hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar nefndi í máli sínu stendur nefndin einnig að flutningi breytingartillögu um að ráðherra skipi þverpólitíska nefnd um að móta tillögur um framtíðarskipan háskólakerfisins með það að markmiði að auka samvinnu, verkaskiptingu og mögulega sameiningu. Ég legg áherslu á mikilvægi þessa en sömuleiðis að við þurfum að sýna meiri metnað í þinginu fyrir hönd háskólanna í landinu, fjárveitingar á hvern nemanda í íslenskum háskólum eru (Forseti hringir.) þrefalt lægri en á Norðurlöndunum og við það verður ekki búið.