140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

692. mál
[13:02]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er stigið það mikilvæga skref að kveðið er skýrt á um að beiting nauðungar gagnvart fötluðu fólki sé bönnuð nema veitt hafi verið sérstök undanþága samkvæmt lögunum eða um sé að ræða neyðartilvik en slík tilvik þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði sem koma fram í þessu frumvarpi og ber tafarlaust að láta af nauðung þegar hættu hefur verið afstýrt eða ástand er liðið hjá. Bannið nær einnig til fjarvöktunar á heimili fólks. Það er nauðsynlegt að aflétta þeirri leynd sem hvílt hefur á þessu málefni og opna umræðuna um af hverju nauðung sé beitt, í hvaða tilfellum það sé gert og hvernig megi markvisst vinna að því að fækka þeim tilvikum.

Nefndin hefur unnið mjög ötullega saman að framgangi þessa máls og fagnar því að þetta frumvarp skuli vera komið fram enda um nauðsynlega og mikilvæga réttarbót að ræða sem skapa mun fastan ramma utan um beitingu nauðungar og fjarvöktunar. Við leggjum því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.