140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þetta sjónarmið frá hv. þm. Þór Saari kemur mér á óvart, sérstaklega vegna þess að umræðan er ekki hafin og ekkert víst um hvernig hún þróast. Hvernig sem á málið er litið finnst mér innlegg hans í umræðuna að minnsta kosti ótímabært svo ekki sé meira sagt.

Það var ekki út af þessu sem ég tók til máls, hæstv. forseti, heldur í tilefni af uppákomu hér í morgun sem varðar fundarstjórn forseta og beinist að öðrum forseta en nú situr. Það varðaði þá ákvörðun forseta hér úr forsetastóli að meina hv. þm. Jóni Gunnarssyni að taka til máls um fundarstjórn forseta milli dagskrárliða. Ég vísa til 7. mgr. 62. gr. þingskapa þar sem segir:

„Jafnan er heimilt að gera stutta athugasemd um atkvæðagreiðslu, um kosningu, um fundarstjórn forseta og til þess að bera af sér sakir.“

Þetta er réttur þingmanna að gera slíka athugasemd (Forseti hringir.) og þegar atkvæðagreiðsla stendur yfir um 23 dagskrárliði sjálfstæða dagskrárliði er ekki hægt að útiloka mann frá því að gera athugasemd við fundarstjórn forseta á þeirri forsendu að atkvæðagreiðsla standi yfir.