140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Tvennum sögum hefur farið af því hvort miklar eða litlar breytingar hafi verið gerðar á veiðigjaldinu í meðförum atvinnuveganefndar og vil ég biðja hv. þingmann að fara í gegnum það hversu mörgum milljörðum lægri veiðigjöldin eru nú við 2. umr. en þegar málið kom fram og spyrja hann hvort ekki sé verið að lækka veiðigjaldið of mikið á milli umræðna miðað við stöðu ríkissjóðs.

Þegar við horfum til þess að almenna veiðigjaldið nemur tæpum 10 kr. á hvert þorskkíló er eðlilegt að spurt sé hvort það sé ekki of lágt fast gjald fyrir aðganginn að meginauðlind þjóðarinnar og jafnvel þó að menn greiði til viðbótar samkvæmt frumvarpinu um 30 kr. í því gríðarlega gróðaári sem árið 2012 verður í íslenskum sjávarútvegi, hvort það sé ekki líka of lágt gjald.

Ef við leituðum eftir sannvirði fyrir þessar aflaheimildir, t.d. með því að bjóða þær út eða bjóða þær upp á markaði, væri ekki alveg öruggt að við mundum alltaf fá miklu hærri fjárhæðir í hlut almennings ef markaðurinn fengi að ráða verðinu? Verða þær tölur sem hér eru ekki að teljast sanngjarnar, ef ekki helst til of lágar, þegar hlutur almennings er hafður í huga, 10 kr. á þorskkíló og 30 kr. aukalega, þegar allir mælikvarðar í sjávarútvegi eru sögulega hagfelldir? (Gripið fram í.)