140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er hægt að leggja mat á auðlindagjaldið út frá ýmsum sjónarhornum. Við getum t.d. lagt mat á það frá því sjónarhorni hvað það er í dag og hvað það verður eftir breytinguna. Þar er um umtalsverða breytingu að ræða. Í öðru lagi er verið að fara nýjar leiðir við að innheimta auðlindarentu. Þetta er fyrsta árið sem mun síðan stigaukast á næstu fimm árum.

Hv. þingmaður spurði hvort ég teldi fastagjaldið vera of lágt, hvort það þyrfti að vera hærra. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Fastagjaldið er ætlað til tiltekinna nota og hluta, þ.e. að standa undir rekstri sjávarútvegsins og umfangi hans hér á landi, og það á að duga fyrir því og gerir það. Þetta er nákvæmlega sama gjald og er verið að innheimta í dag sem fast gjald af sjávarútveginum.

Hitt gjaldið er sanngjarnt, þ.e. rentugjaldið, og ræðst af afkomu greinarinnar og skiptist með tilteknum hætti á milli greinarinnar og eigandans, þ.e. ríkisins. Við getum hins vegar deilt um það hvort of langt sé gengið í því (Forseti hringir.) hvernig skiptin eru, þau hafa heldur hallað á ríkið milli umræðna í nefnd.