140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hefur farið fram um þessi mál er algjörlega teórísk því að sýnt var fram á að frumvarpið, eins og það var upphaflega lagt fram, hefði ekki leitt til þess að ríkið fengi í rauninni þær tekjur sem stefnt var að vegna þess einfaldlega að stór hluti fyrirtækjanna hefði ekki risið undir þeirri gjaldtöku. Það er því tómt mál um að tala að velta þessu fyrir sér með þeim hætti sem var verið að gera í umræðunni rétt í þessu.

Mig langar einmitt í tengslum við þetta að víkja aðeins að ræðu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, sem mér fannst á margan hátt ágæt ræða fyrir hans hatt, ballanseruð og gerði grein fyrir þeim breytingum sem meiri hluti atvinnuveganefndar er að gera á þessu frumvarpi.

Á bls. 7 í nefndaráliti sem hv. þingmaður vék að í ræðu sinni segir að meiri hlutinn telji að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti hafi sýnt fram á að staðhæfingar um að álagning sérstaks veiðigjalds leiði til almenns og víðtæks hallareksturs útgerðarfyrirtækja séu byggðar á forsendum sem ekki eigi við raunveruleg rök að styðjast.

Þetta finnst mér harla skrýtin fullyrðing, m.a. get ég vísað í mörg álit sem benda til hins gagnstæða. Ég ætla að láta duga að skoða álit Stefáns B. Gunnlaugssonar og Daða Más Kristóferssonar þar sem þeir komust að því að frumvarpið mundi leiða til þess að EBITDA sjávarútvegsfyrirtækjanna lækkaði um 34–40% og mest yrðu áhrifin á fyrirtæki sem væru bara í útgerð. Það mundi t.d. blasa við krókaaflamarkinu eins og það leggur sig erfið og nær vonlaus skuldastaða. Þetta finnst mér sýna út af fyrir sig að fullyrðing meiri hlutans stenst ekki. Meginniðurstaða þeirra sem voru að skoða þessi mál, allra nema þeirra í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, var sú að eins og málin væru lögð fram stæði sjávarútvegurinn ekki undir þessari gjaldtöku með þeim breytingum sem ætti síðan að gera á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni.

Þess vegna hlýt ég að mótmæla þeirri staðhæfingu sem kemur fram í nefndarálitinu og hv. þingmaður ítrekaði í ræðu sinni.