140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að það kemur fram í gögnum margra umsagnaraðila að stór hluti sjávarútvegsfyrirtækja mundi falla ef frumvarpið yrði að lögum. Það kemur líka fram í þeim gögnum að stór hluti sjávarútvegsins sé þegar fallinn og muni hvort eð er falla vegna skuldastöðu útgerðarinnar frá fyrri tíð en ekki út af rekstri — út af skuldastöðu sjávarútvegsins frá fyrri tíð er stór hluti sjávarútvegsfyrirtækja, ekki síst í krókaaflamarkskerfinu, þegar fallinn og það án nokkurrar kerfisbreytingar sem þessi ágæta ríkisstjórn hefur gripið til. Það eru syndir hinna gömlu tíma. Það voru sláandi upplýsingar sem komu meðal annars fram frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða hvað þetta varðar þegar sú niðurstaða blasti við að á árunum 2008 og 2009 var staða sjávarútvegsfyrirtækja á því svæði með þeim hætti að þau voru nánast öll óstarfhæf, órekstrarhæf, ef eitthvað er að marka þá niðurstöðu.

Það á auðvitað ekki að miða útreikning á auðlindarentu eða gjaldtöku, sem lögð er til í frumvarpinu, út frá þeim sjónarhóli heldur út frá rekstri fyrirtækjanna, hvort reksturinn er góður, hvort afkoman er góð, ekki hvort fyrirtæki hafi skuldsett sig með einhverjum hætti frá fyrri tíð og það hamli því að þjóðin fái eðlilegan arð af eigin eign. Það er þjóðnýting skulda að fara fram með þeim hætti, það er að þjóðnýta tapið, koma í veg fyrir að eigandinn fái sinn sanngjarna hlut. Það er ósanngjarnt gagnvart eigandanum. Þess vegna verðum við að líta á afkomu fyrirtækjanna, möguleika þeirra til að standa. Allir eru á einu máli um að afkoman stendur vel undir því. Vissulega eru syndir hinna gömlu tíma mörgum fyrirtækjum þungbærar en það verða aðrir að taka á því en íslenska ríkið eða ríkissjóður. Lánastofnanir og bankar (Forseti hringir.) þurfa að koma til móts við þau fyrirtæki og létta á þeim skuldunum ef þau eiga að geta staðið undir eðlilegri skuldbindingu af hálfu eiganda auðlindarinnar.