140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað rétt að sjávarútvegurinn skuldar eins og aðrar greinar í atvinnulífinu. En það sem greinir sjávarútveginn frá atvinnulífinu almennt er að mjög lítill hluti skulda sjávarútvegsins hefur verið afskrifaður. Sjávarútvegurinn er almennt í góðum skilum við lánastofnanir sínar, sjávarútvegurinn getur staðið undir skuldbindingum í heildina séð. Það kemur meðal annars fram í skýrslu Stefáns Gunnlaugssonar og Daða Más Kristóferssonar, en einnig að ríkisstjórnin sé nú að leggja fram frumvörp sem kollvarpa þessu. Og það er alvarlegt að verið sé að raska þessu.

Það er dálítið sérkennilegt ef niðurstaða hv. þingmanns, talsmanns nefndarinnar, er sú að staðan sé svo erfið og að þá sé sérstakt tilefni til að auka álögurnar og draga úr möguleikum á hagkvæmni. Þetta er eins og sagt hefur verið: Svo skal böl bæta að bíða annað meira, svo ég vitni í Grettis sögu.