140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og framsögumanni málsins fyrir yfirferðina. Hann fjallaði eðlilega talsvert mikið um aðferðafræðina og það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að flestir, en ekki allir þó, tóku undir að það væri skynsamlegt að vera tvískipt auðlindagjald, annars vegar lágt fast gjald og hins vegar gjald af afkomu. Menn geta auðvitað deilt um hvað er lágt gjald, 9,5 kr. getur varla talist lágt ef til dæmis allur strandveiðiflotinn gat ekki greitt 8 kr. og stór hluti af smábátakerfinu ekki heldur, samkvæmt greinargerðum sérfræðinganna. Þá getur 9,5 kr. ekki verið lágt í því samhengi.

Aðferðafræðin, þessi árgreiðsluaðferð, var að öðru leyti gagnrýnd held ég af öllum. Ég man að minnsta kosti ekki í svipan eftir nokkrum einasta aðila sem tók undir að þetta væri skynsamleg leið. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort sú hugmynd hafi aldrei komið upp að taka upp aðrar aðferðir. Það var rætt í atvinnuveganefnd og ég hef vitneskju um að slíkar hugmyndir hafi að minnsta kosti verið reifaðar. Kom aldrei til greina hjá ráðuneytinu og meiri hluta atvinnuveganefndar að taka upp aðra aðferð sem tæki raunverulega tillit til þeirra galla sem til dæmis sérfræðingarnir Daði Már Kristófersson og Stefán B. Gunnlaugsson bentu á í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu, reyndar um stjórn fiskveiða? Það finnst mér ákaflega mikilvægt atriði.

Svo vil ég líka spyrja hv. þingmann hvort ekkert hafi verið hlustað á sérfræðingana. Það hefur síðan komið í ljós í þeirri umræðu sem við eigum núna í atvinnuveganefnd um breytingarnar á stjórn fiskveiða að ef farið verður í þær samhliða því að leggja á svona gríðarlega há gjöld geti atvinnugreinin engan veginn staðið undir því og fjöldagjaldþrot verði í greininni. Kom aldrei til greina að hlusta á þessa sérfræðinga, meira að segja sérfræðinga sem bæði ráðuneytið og nefndin fengu til liðs við sig til þess að skýra málið?