140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki fékk ég svar við því hvort aðrar leiðir hefðu verið kannaðar til hlítar. (Gripið fram í.) Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort það sé þannig í dag að strandveiðarnar séu að greiða fastagjaldið og hvort ekki sé rétt sem kom fram að þær stæðu ekki undir þeim 8 krónum sem lagðar voru til í frumvarpinu og hvort líklegra sé að þær standi undir því 9,5 kr. gjaldi sem lagt er til í breytingartillögunum.

Hérna kemur auðvitað fram hjá hv. þingmanni að það er í raun og veru aldrei hlustað á það sem aðrir hafa sagt eða þá að einhver verulegur misskilningur hlýtur að hrjá hv. þingmann því að í umsögnunum var jú fyrst og fremst aðferðafræðin gagnrýnd þó að menn væru sammála um að það væri kannski ekkert óeðlilegt að leggja á fast gjald og síðan afkomutengt gjald, nema LÍÚ sem var á móti því, ef ég man rétt.

Það er líka sérstakt, eins og hér hefur komið fram, að ekkert mark eigi að taka á niðurstöðum ársreikninga og skattskýrslna heldur eigi fyrst og fremst að miða við einhverjar gamlar tölur og vísitölur og leggja þannig mat á rentuna í sjávarútveginum og það sé hin skynsamlega niðurstaða. Og með breytingartillögunni við 4. gr., um að færa verkefnið inn í veiðigjaldsnefndina vegna þess að ekki sé búið að útfæra þetta á nægilega skynsamlegan hátt, er meiri hlutinn búinn að viðurkenna að þessi aðferðafræði er vonlaus.