140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er að reyna að fá mig til að nefna tölu. Ég get það ekki vegna þess að ég veit það ekki nákvæmlega og veit alls ekkert um það hvernig rekstrarumhverfi sjávarútvegsins verður miðað við þau frumvörp sem liggja fyrir. Ég gæti trúað að það sé rétt hjá hv. þingmanni að sjávarútvegurinn gæti staðið við þær aðstæður sem við búum við í dag, miðað við það gengi sem er í dag og miðað við óbreytt fiskveiðistjórnarkerfi. Ég gæti vel trúað því að sjávarútvegurinn gæti nú risið undir 10 milljarða veiðigjaldi, að hann gæti nokkurn veginn risið undir því sem þetta almenna veiðigjald á að gefa eða nálægt því. Ég er ekkert frá því.

Hins vegar er algjörlega ljóst að ef breytingarnar á fiskveiðilöggjöfinni ná fram að ganga í þeim anda sem fiskveiðistjórnarfrumvarpið gerir ráð fyrir mun það hafa tvenns konar áhrif í meginatriðum: Það mun auka útgjöld sjávarútvegsins og það mun minnka tekjur sjávarútvegsfyrirtækja. Þá sjá auðvitað allir í hendi sér að við slíkar aðstæður mun sjávarútvegurinn ekki geta risið undir 20 milljarða gjaldtöku og það væri ekki hófleg gjaldtaka, það væri fáránleg gjaldtaka.