140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Almennt talað er ég gríðarlega mikill bjartsýnismaður og sérstaklega í þessu góða veðri. Því hryggir það mig að ríkisstjórnin skuli vera með svo vond frumvörp að jafnvel slíkur bjartsýnismaður eins og ég skuli þurfa að tala í svartsýnistón í þessu góða veðri. En það er bara ekki við mig að sakast, þarna er auðvitað ríkisstjórnin að verki eins og fyrri daginn þegar kemur að vondum málum.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað mun þetta allt saman ráðast af því hvernig stóra fiskveiðistjórnarfrumvarpið mun líta út, alveg eins og sérfræðingarnir hafa bent mér á. Ég get út af fyrir sig tekið undir það að ýmislegt í þessum breytingartillögum horfir til réttrar áttar þó að ég sé þeirrar skoðunar að enn sé gjaldið allt of hátt, það er að minnsta kosti 50–60% of hátt. En þá er ég líka að miða við að hér sé óbreytt fiskveiðistjórnarkerfi (Gripið fram í.) og um það stendur stóra deilan.

Þegar hv. þingmaður talar um veiðigjald verður hann að tala út frá þeim forsendum sem ætlunin er að gefa sjávarútveginum með því rekstrarumhverfi sem sjávarútvegurinn þarf að búa við í þeirri almennu löggjöf sem um er að ræða. Ég tek undir það og mér fannst það vera ákall frá hv. þingmanni að við reyndum að sjá til þess (Forseti hringir.) að breyta því fiskveiðistjórnarfrumvarpi frá því sem nú er.