140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem gerst hefur í sjávarútveginum og gerðist sérstaklega á tíunda áratug síðustu aldar var að það átti sér stað mikil hagræðing. Þá var verið að fækka skipum, aflaheimildir sameinaðar, dregið úr sóknartengdum kostnaði og þar fram eftir götunum. Það er enginn vafi á því að það hefur búið til hagræðingu í greininni en það kostaði sitt. Hverjir borguðu það? Það voru útgerðirnar, þær útgerðir sem störfuðu áfram, þær sitja uppi með svarta pétur, eins og stundum hefur verið sagt.

Í löndunum í kringum okkur er þessu öðruvísi farið. Þar reyna menn að fækka skipum, draga úr sóknartengdum kostnaði — og hvert senda menn reikninginn? Til almennings. Þeir borga ekki neinn arð út úr sjávarútveginum til almennings en hins vegar er reikningurinn vegna sjávarútvegsins sendur til almennings í landinu.

Nákvæmlega það sama hefur gerst í krókaaflamarkinu nema það gerðist kannski einum áratug síðar. Þess vegna er krókaaflamarkið í erfiðari stöðu. Krókaaflamarkið var einfaldlega sett á laggirnar miklu seinna og sú hagræðing sem krókaaflamarkið sjálft hefur verið að borga fyrir hefur þess vegna birst okkur í hærri skuldum. Ég tek undir það, mér finnst það vera eðlileg viðleitni af hálfu meiri hluta nefndarinnar að reyna að koma til móts (Forseti hringir.) við þessar sérstöku aðstæður. Ég get hins vegar ekki lagt mat á það vegna þess að tölurnar (Forseti hringir.) eru svo á reiki um hvort þetta mun duga eða hvernig þetta mun koma út.