140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þá halda áfram að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að sú mikla aflaaukning, sem getur samkvæmt líkani Hafrannsóknastofnunar farið allt upp í 250 þús. tonn á næstu fimm árum, hafi ekki áhrif á getu sjávarútvegsins til að standa undir því veiðigjaldi sem boðað er og hefur verið lækkað mikið, eins og fram hefur komið. Ég vil bara benda á, af því að við þekkjum bæði ágætlega til línuútgerðar á Vestfjörðum, að til dæmis kostar einn krókur á línu 16 kr. og, nota bene, hann verður dreginn af sem rekstrarkostnaður áður en auðlindarentan verður lögð á. Telur hv. þingmaður virkilega í því samhengi að verið sé að ofbjóða greininni með þeirri rentu sem þarna er talað um?

Varðandi það að frumvarpið stangist á við stjórnarskrána, telur hv. þingmaður ekki að Magnús Thoroddsen hæstaréttardómari hafi skýrt það vel út að hann teldi svo ekki vera? Hvaða álit hefur hv. þingmaður á þeirri umsögn Magnúsar Thoroddssens sem kom fyrir nefndina?