140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þar sem hv. þm. Jón Gunnarsson hefur hótað okkur því að halda fleiri ræður vil ég biðja hann þess lengstra orða að halda þær ræður sem hann á eftir að flytja hér á grundvelli réttra gagna, þ.e. á grundvelli þeirra tillagna sem liggja fyrir. Hv. þingmaður, af því að hann er hér í málþófi og engu öðru, kýs að lengja mál sitt með því að lesa upp úr umsögnum sérfræðinga sem byggjast á öðru en málinu sjálfu eins og það lítur út í dag. Ég ætla ekki að hafa frekari orð um það.

Hv. þingmaður leyfir sér þar að auki að koma hingað og tala um sjávarútveginn eins og hann sé á vonarvöl. Í hvaða samfélagi og veruleika lifir hv. þingmaður? Veit hann ekki að sjávarútveginum hefur aldrei vegnað jafn vel og núna? Ég get fullyrt, og svo skulum við bera saman bækur okkar eftir eitt ár, að jafnvel þó þetta veiðigjald upp á 15 milljarða verði lagt á sjávarútveginn yrði afkoma hans á næsta ári sú besta sem hann hefur nokkru sinni sýnt. Þannig er staðan í sjávarútveginum í dag. Það er ekkert öðruvísi.

Við skulum leyfa hv. þingmanni að hafa þá skoðun sem hann vill. En hver er skoðunin? Er hann þeirrar skoðunar að ekki megi hækka veiðigjaldið? Kemur hann hingað sem nakinn talsmaður sjávarútvegshagsmunanna og berst gegn því sem meira að segja greinin sjálf hefur fallist á að sé í lagi að gera, þ.e. að leggja á hana sérstakt gjald vegna þeirra miklu tekna sem hún hefur af því að búa við þær sérstöku aðstæður að hafa einkarétt á því að nýta auðlind allra landsmanna?

Hv. þingmaður segir sömuleiðis að það verði fyrsta verk Sjálfstæðisflokksins, ef hann komist til valda, að vinda ofan af þessu máli. Þá ætla ég að biðja hv. þingmann að koma hingað og segja mér það sem enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur þorað að segja hér í dag: Hvers konar veiðigjald ætla þeir að hafa? Eða er það stefna flokksins að hækka veiðigjaldið ekki neitt?