140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:56]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sjá nú allir í gegnum útúrsnúninga hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli sem svo mörgum öðrum, hann fer í pólitískan leik og sakar mig um að vera í málþófi. Það er tískan hjá þeim í dag að tala um það. Ég vitna að sjálfsögðu í umsagnir þeirra aðila sem hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki kynnt sér í þessu máli kannski ekki frekar en í öðrum. Auðvitað verð ég að lesa það hér upp að hluta til og rökstyðja þannig mál mitt. Það fylgir málflutningi okkar að hafa rök á bak við það sem við segjum. Það er ekki til hjá hæstv. ráðherra. Það er einfaldlega rangt, eins og ég sagði áðan, að einhver alvörulækkun hafi farið fram á veiðigjaldinu í þessu veiðigjaldsfrumvarpi.

Leiðrétt voru stórkostleg mistök ráðuneytisins við reikniregluna og er með ólíkindum að þau vinnubrögð skuli vera viðhöfð að á fyrstu metrunum í vinnu sinni skuli sérfræðingarnir sem nefndin fær til að vinna óska eftir því að frumvarpið verði kallað til baka af því að þeir geti ekki unnið það áfram eins og þeir sögðu sjálfir.

Ég segi það já, að Sjálfstæðisflokkurinn mun í þessu máli eins og svo mörgum öðrum þegar hann kemst til valda vinda ofan af vitleysunni. Hvernig munum við gera það? Við tókum af fullum heilindum þátt í starfi sáttanefndanna — af fullum heilindum allan tímann. Þar var komist að þeim grunni sem á að byggja sátt um sjávarútvegsmál á. Það á að byggja á þeim grunni sem þar var lagður. Það mundum við gera.

Hvað er hóflegt veiðigjald? (Gripið fram í.) Um það verður alltaf deilt. Sjálfstæðisflokkurinn segir í landsfundarsamþykkt að ástæða sé til að hækka veiðigjaldið. Það eru allir sammála um það. En við skulum ekki gleyma því að veiðigjaldið hefur hækkað úr 1,3 milljörðum upp í um 10 milljarða á næsta fiskveiðiári. Það er engin smáhækkun. Það er um áttföld hækkun. Hversu langt (Forseti hringir.) á að ganga? Ekki það langt, virðulegi forseti, að gengið verði (Forseti hringir.) að þessum fyrirtækjum og þau standi þannig eftir að þau geti ekki stundað starfsemi sína og (Forseti hringir.) þær fjárfestingar sem til þarf.