140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvaða veiðigjald á íslenskur sjávarútvegur að greiða fyrir aðgang að auðlindinni? Það eiga að vera 15 milljarðar. Miðað við þann 5 milljarða tekjuskatt sem hann greiðir fyrir síðasta ár og 10 milljarða í veiðigjald samkvæmt fjárlagafrumvarpinu mun hann greiða um 15 milljarða. Er það nóg fyrir hæstv. ráðherra? Nei, það dugar ekki. Það er alrangt sem hann fullyrðir hér um þessa 6 til 7 milljarða kr. lækkun. (Gripið fram í: Nei.) Þetta var leiðrétting á reiknireglu, handvömm ráðuneytisins, ekkert annað, ekki breyting á markmiðum frumvarpsins.

Það er ekki hægt að meta hvað sjávarútvegurinn getur greitt fyrr en ramminn utan um starfsskilyrði hans er orðinn til. Það er einmitt það sem kom fram í fyrradag, hjá þeim sérfræðingum sem vinna fyrir nefndina, að þeir sögðu: Mikil breyting hefur orðið á reiknireglu veiðigjaldsfrumvarpsins sem leiðir af sér að gjaldið er miklu minna en ef farið hefði verið eftir (Gripið fram í.) hinni reiknireglunni (Gripið fram í: 7 milljarðar.) — já, miklu minna en ef farið hefði verið eftir hinni reiknireglunni en er sú tala. Það eru allt önnur áhrif. En við getum alls ekki tjáð okkur um það hvort sjávarútvegurinn getur greitt það gjald fyrr en frumvarpið um fiskveiðistjórn liggur fyrir. Það er það sem ég var að gagnrýna hér áðan að í þessu máli eins og svo mörgum öðrum snýr hæstv. ríkisstjórn málunum á hvolf og byrjar á röngum enda, hún byrjar alltaf á röngum enda. Þannig komumst við ekkert að þessari niðurstöðu. Þannig getum við ekkert klárað þessa umræðu um veiðigjaldið fyrr en við vitum hvað ríkisstjórnin ætlar að gera.

Í gær komu síðan fram breytingartillögur frá meiri hlutanum á nefndarfundi. Þær breytingartillögur voru mjög óverulegar (Forseti hringir.) og með þann grunn sögðu sérfræðingarnir (Forseti hringir.) við atvinnuveganefnd í morgun: Við breytum ekki (Forseti hringir.) fyrra áliti okkar. Það stendur. Það er óbreytt. (Forseti hringir.) Það stendur í öllum liðum. En þetta mun (Forseti hringir.) hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskan sjávarútveg, draga mjög úr fjárfestingu og allri (Forseti hringir.) þróun í greininni.