140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

fundarstjórn.

[19:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er að verða nokkurn veginn endurtekið efni frá því í fyrra. Um þessar mundir í fyrra stóðum við nákvæmlega í sömu sporum. Þá var verið að ræða um frumvarp sem fer beinlínis fram gegn hagsmunum íslenskra sjómanna. Nú er sjómannadagshelgin að renna upp, hinn hefðbundni sjómannadagur er á sunnudaginn, en mál hafa þróast þannig í sjávarbyggðunum í kringum landið að sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur um helgina alla og við tölum um sjómannadagshelgina.

Nú er sú helgi að renna upp og enn á ný sýnir ríkisstjórn Íslands þá ósvífni gagnvart íslenskri sjómannastétt að halda áfram þingstörfum um mál sem beint er beinlínis gegn hagsmunum sjómanna á hátíðardögum þeirra. Það sýnir skeytingarleysi og virðingarleysi ríkisstjórnarinnar í garð íslenskrar sjómannastéttar. Þetta er ekki spurning um hvort þingmenn vilji, nenni eða geti haldið áfram fundum sínum fram á nótt eða um helgar. Þetta er spurning um að Alþingi Íslendinga sýni virðingu gagnvart íslenskum sjómönnum og þó að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki skilning á þessu þá ætlast ég til þess að Alþingi Íslendinga og forseti Alþingis sýni þann skilning gagnvart íslenskum sjómönnum sem þeim ber.