140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

fundarstjórn.

[19:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með þeim ræðumönnum sem hér hafa talað. Það er í raun kostulegt að við skulum vera hér föstudag fyrir sjómannadag. Það hefur verið sagt í umræðum um annað mál, Icesave-málið, að hægt sé að líkja því við kvikmynd sem upp á ensku heitir Groundhog Day þar sem aðalpersónan vaknaði á hverjum morgni og alltaf var sami dagurinn. Mér líður núna eins og við séum farin til baka um heilt ár, það var nákvæmlega föstudaginn fyrir sjómannadag fyrir ári sem við áttum í sama orðaskaki við hæstv. forseta.

Fyrir ekki margt löngu krafðist hæstv. forsætisráðherra þess að umræðu yrði frestað vegna þess að hún var að fara að taka til máls en enginn var í salnum. Nú ætla ég að upplýsa að hér situr einn stjórnarþingmaður (Forseti hringir.) í hliðarsal, hæstv. utanríkisráðherra er hér en enginn þingmaður úr (Forseti hringir.) hv. atvinnuveganefnd. Ég fer fram á það, frú forseti, að umræðunni verði frestað þar til það fólk er komið í hús. (Gripið fram í: Hvar er formaðurinn?)