140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

fundarstjórn.

[19:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ef ég man rétt gera þingsköp að jafnaði ráð fyrir því að fundað sé til klukkan átta og heimildin sem vissulega var samþykkt í dag, gegn atkvæðum okkar í stjórnarandstöðunni, var ótilgreind.

Við erum að biðja hæstv. forseta um að gefa okkur þó ekki væri nema örlitla vísbendingu um það hvort það að fara inn í kvöldið þýði níu, tíu, ellefu, tólf, eitt, tvö, þrjú — einhverja vísbendingu um það. Heimildin er vissulega fyrir hendi en ekki er þar með sagt að hæstv. forseti geti ekki gefið einhverja vísbendingu um það hversu lengi fundur muni standa.

Vegna ummæla hæstv. utanríkisráðherra áðan er rétt að geta þess að sjómannadagshátíðahöld víða um land byrja á morgun, meðal annars í kjördæmi okkar (Gripið fram í.) hæstv. ráðherra, (Gripið fram í.) byrja í fyrramálið úti á Grandagarði (Forseti hringir.) ef ég hef skilið auglýsingar rétt og vonast ég til að sjá hæstv. ráðherra þar.