140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur verið landlægt hér hin síðari missiri að minnsta kosti að gera mikið úr óeiningu. Ég held að við gerum allt of mikið úr óeiningu og ég get fullvissað hv. þingmann um að ég hef ekki orðið var við sérstaka óeiningu í röðum stjórnarliða í þessum málum, sannarlega ekki. Ég held raunar að í þessu máli, veiðigjaldinu, sé heldur ekki til að dreifa óeiningu á milli stjórnar og stjórnarandstöðu að heitið geti. Ég held að í meginatriðum séum við sammála í þessum málum og ég held að það hafi komið fram í ræðu hv. þingmanns. Hann vildi bara ræða fiskveiðistjórnarmálið fyrst. Ég hvet nú til þess að við ljúkum 2. umr. um veiðigjaldið áður en við tökum til við það. Við getum svo rætt samhengið við 3. umr. um þetta mál. Þannig mjakast hlutirnir áfram og samverka okkur vonandi til góðs.

Hvað því viðvíkur hvort aðilarnir sem kallaðir eru ættu að reka þær stofnanir sem starfa að sjávarútvegsmálum þá er ég út af fyrir sig tilbúinn til þess að skoða ýmislegt en ég held þó að eftirlitsstofnanir eigi ekki að vera í höndum þeirra sem á að hafa eftirlit með né heldur grunnrannsóknir sem taka á um pólitískar ákvarðanir um verulega hagsmuni aðila, þannig að þá fyrirvara yrði nú almennt að hafa að slíkt skapaði ekki óheppilega hagsmunaárekstra. En við eigum að vera opin fyrir ýmsum hugmyndum.