140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:14]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins meira af þessu með stofnanirnar. Íslenskur sjávarútvegur hefur sýnt ótrúlega aðlögunarhæfni að þeim mismunandi skilyrðum sem hafa verið eftir árstíðum og eftir því hvernig gengið hefur á hverjum tíma í greininni, ótrúlega aðlögunarhæfni, og hefur náð gríðarlega mikilli hagræðingu fram á tiltölulega fáum árum. Við erum því að reka hér væntanlega einhvern arðsamasta sjávarútveg í heimi. Ég teldi líklegt að hann gæti rekið þessar stofnanir. Það er engum meira til hagsbóta en greininni sjálfri og þeim sem vilja stunda þar heiðarleg viðskipti og heiðarlega starfsemi að hlutirnir séu í lagi. Auðvitað þarf að skilja á milli eftirlitsstofnana og hins almenna reksturs með einhverjum hætti, en það þarf að tryggja þetta.

Ég vil spyrja hv. þingmann að lokum ef við eigum að ljúka þessu máli, hvort ekki komi til greina (Forseti hringir.) að fara að þeim tillögum sem við höfum lagt fram og fleiri hafa mælt fyrir að sest verði yfir breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu fram á haust, (Forseti hringir.) menn reyni að koma sér saman þar meira í sátt en sættist á að hækka (Forseti hringir.) veiðigjaldið eitthvað á þeim tíma.