140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi kolefnisgjaldið og hvernig menn færu að því að skattleggja olíuauðlindirnar. Við vorum að samþykkja lög um það fyrir ekki löngu og það er athyglisvert að menn fara til dæmis ekki jafnbratt í skattlagningu á þeirri mögulegu auðlind, þegar til nýtingar hennar kemur, eins og verið er að fara í með því frumvarpi sem hér liggur fyrir.

Ef við gætum orðið sammála um það, ég og hv. þingmaður, að skoða þessa hluti í samhengi og hafa eitthvert samræmi þar í milli væri ég tilbúinn að setjast niður með hv. þingmanni og reyna að leysa málið fyrir þessa umræðu.

Þetta er á vissan hátt lúxusvandamál, við ræðum um hvernig við eigum að fara með arðsemi í sjávarútvegi. Það er bara hlutur sem aðrar þjóðir þurfa almennt ekki að ræða vegna þess að sú arðsemi er ekki til staðar. Það er ævintýralegt að frá árinu 1984, í nærri 30 ár, hefur arðsemi í sjávarútvegi verið að aukast um 0,5% á ári og það er afleiðing af því skipulagi sem við höfum og auðvitað af mörgum öðrum þáttum. Það segir okkur að við megum ekki fara að raska þessum grundvelli því að þá (Forseti hringir.) stefnum við líka í voða þeim markmiðum sem verið er að setja með þessu frumvarpi. Við gætum staðið frammi fyrir því eftir kannski fimm ár eða tíu ár (Forseti hringir.) að menn þyrftu ekki einu sinni að ræða spurninguna um auðlindaskatt vegna þess að engar forsendur væru fyrir slíkri skattlagningu.