140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller, formanni atvinnuveganefndar, fyrir að miðla úr reynslubrunni sínum. Ég held að það sé mikilvægt að þingmenn sem búa yfir slíkri reynslu séu þá hér og deili henni með okkur nýliðunum, (Gripið fram í.) eins og hv. þingmaður var líklega að gera rétt í þessu. Það er mjög ánægjulegt þegar svo er.

Frú forseti. Ég vil þá líka benda á að varaformaður nefndarinnar þyrfti kannski að vera hérna líka en ég heyrði ekki forseta nefna að náðst hefði að boða hann í hús. Ef ég man rétt þá er það hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Ég tel mjög æskilegt að forseti reyni áfram að fá þann góða hv. þingmann hingað í hús þannig að við höfum hér fullskipað lið stjórnarliða til að hlusta á okkur þingmenn stjórnarandstöðunnar. Fáir stjórnarliðar hafa tekið til máls, hv. þm. Helgi Hjörvar hefur gert það og einhverjir fleiri og þakka ég þeim fyrir það.