140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég get ekki nafngreint þá aðila því að ég hef ekki lúslesið allar þær umsagnir sem borist hafa um málið. Ég er búinn að lesa nokkrar en ekki allar þannig að ég treysti mér því miður ekki til að fullyrða hvort einhver mælir með því og þá hverjir það eru. Ég hygg að þeir séu ekki mjög margir en ætla ekkert að fullyrða um það.

Það kemur hins vegar fram í mjög mörgum umsögnum um þetta mál að horfa verður til samhengisins milli þessara tveggja mála. Ég hef miklar áhyggjur af afkomu sjávarbyggða fari þessi mál bæði óbreytt í gegn eða með þeim hætti sem búið er að sýna fram á. Brugðist hefur verið við ákveðnum þáttum í þessu máli, smávægilegar breytingartillögur hafa komið fram, en hv. þingmenn í meiri hlutanum hafa þó sagt að þetta séu ekki endanlegar tillögur, sagt að enn sé verið að ræða málin. Auðvitað bindur maður vonir við að einnig verði tekið til í því máli áður en það kemur til 2. umr. í þinginu.