140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég svara þessu bara heiðarlega og strax: Það er auðvitað mun skynsamlegra að taka þetta af arðseminni í greininni, ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það, en þá verðum við fyrst að finna út hvernig við ætlum að reikna arðsemina.

Meiri hlutinn leggur til að setja þetta á ígildin og þess vegna spurði ég að því í ræðu minni hvort ekki væri alveg öruggt að það hefði verið skoðað sérstaklega. Mismunandi hátt gjald er lagt á ígildi, annars vegar í uppsjávarveiðum og hins vegar í botnfisksveiðum. Það er mismunandi gjald, þetta aukagjald. Ígildin geta verið mjög skökk. Við munum til að mynda að þegar við vorum að rífast um skiptinguna í pottana í uppsjávarveiðunum var makrílígildið 0,16 en útflutningsverðmætið í kringum 200 kr. kílóið þegar þorskurinn var á 300–350 kr. eða hvað það var. Þar var mikil skekkja. Þess vegna fór ég inn á það í ræðu minni að menn yrðu að skoða með hvaða hætti gjaldið yrði lagt á hvert ígildi.

Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni, en þá verðum við að komast á þann punkt að geta sagt hvernig við ætlum að reikna EBITDA út áður en við förum að rífast um á hvaða grunni það er.