140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að velta einu fyrir mér og það er kannski ekki rétt að spyrja hv. þingmann að því en ég ætla samt að skjóta því á hann.

Við fjöllum hér um veiðigjald og því er gjarnan lýst þannig að það sé eðlilegt að þeir sem nýta auðlindina greiði einhvers konar leigu eða rentu eða hvað við köllum það fyrir að hafa leyfi innan ákveðins lagaramma til þess að nýta hana. Hvað er verið að segja með því? Er þá verið að segja að sama eigi að gilda um aðra í öðrum atvinnugreinum sem nýta auðlindir, ef við reynum að gefa okkur einhverja mynd af því hvað auðlindir eru?

Ég velti fyrir mér þeim sem framleiða rafmagn, til dæmis einkaaðilar sem framleiða rafmagn, sem eru býsna margir á Íslandi, þeir eru ekki allir stórir en þeir framleiða rafmagn úr vatni sem er auðlind sem einhverjir telja væntanlega að landsmenn eigi. Ég velti fyrir mér aðilum í ferðaþjónustu selja ferðir og nýta auðlindir landsins sem eru náttúran og umhverfið. (Forseti hringir.) Er hugsanlegt að frekari útvíkkun verði á þessari hugmyndafræði að mati hv. þingmanns?