140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég er ósköp einfaldlega að vísa til þegar ég tala um hvernig veiðigjöldin eða sá hluti þeirra sem fjallar um sérstaka veiðigjaldið verkar í þessum efnum, að það er eðli svonefndrar árgreiðsluaðferðar að hún skilur alltaf eftir hjá greininni allan rekstrarkostnað plús ríkulega ávöxtun á fjármuni sem bundnir eru í greininni, það er eðli hennar, það er tekið frá fyrst. Þar af leiðandi er sérstaka veiðigjaldið þess eðlis að það getur vissulega orðið umtalsvert þegar framlegðin er mjög mikil, en það lækkar mjög hratt eða hverfur ef hún er það ekki. Það er alltaf tekið frá fyrst fyrir rekstrarkostnaði greinarinnar og ávöxtun, ríkulegri ávöxtun á alla fjármuni sem í henni eru bundnir plús skilið eftir ákveðið hlutfall af því sem þar er umfram.

Varðandi það að veiðigjaldafrumvarpið gerir það að verkum að ekki séu ástæður til að takast á við breytingar á lögum um stjórn fiskveiða — nei, þá er ég því ósammála. Ég tel að við eigum að reyna að klára þetta mál í heild sinni (Forseti hringir.) og það væri ákaflega farsælt ef við gætum siglt því öllu saman í heila höfn.