140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir sérfræðingar sem nefndin fékk sér til ráðgjafar í þessu hafa rökstutt mjög skýrt — ég vil minna hæstv. ráðherra á það að þetta eru þeir sérfræðingar sem bentu á þá miklu skekkju sem var í fyrstu drögum sem komu frá ráðuneytinu í þessum málum, leiðréttu frumvarpið — og hafa lagt fram mjög rökstuddar fullyrðingar eða rökstuðning fyrir máli sínu þegar þeir segja að með því að gera stórar breytingar á kvótaúthlutuninni, á því kerfi, muni það hafa veruleg áhrif.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, og það er nú kannski vegna þess sem hann hefur talað áður um veiðigjald. Er hann ekki sammála okkur eins og hann talaði þá að þetta sé skattur? „Álagning veiðigjalds er einhvers konar brúttóskattur eða veltuskattur“, svo ég vitni í orð hæstv. ráðherra. Eins hvort hann er ekki sammála því sem hann sagði áður: „Skatturinn er óréttlátur með tilliti til byggðanna í landinu.“ Og einnig þessu: „Í ljósi þess að fjölmargar atvinnugreinar nýta með einum eða öðrum hætti sameignir þjóðarinnar, án þess að því fylgi sérstök skattlagning, (Forseti hringir.) er útilokað að leggja þennan skatt á sjávarútveg eingöngu.“