140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hugmyndir manna um auðlindagjöld og auðlindarentu hafa þróast mikið á undanförnum árum og sú aðferðafræði er orðin miklu þróaðri en áður. Þetta er þróunin í skattalegum rétti sem er í gangi og til umræðu miklu víðar en hér hjá okkur. Nægir að vísa til Noregs og Kanada og fleiri landa í þeim efnum. Og benda má á skýrslu sem skattasérfræðingar á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins unnu þar sem er ítarleg umfjöllun um þessi mál.

Auðlindarenta er — jú, jú, menn geta kallað hana skatt, en hún lýtur samt sérstökum lögmálum. Andlag hennar er annað en í hefðbundnum skattalegum skilningi á við. Aðstæðurnar sem við erum að tala um í íslenskum sjávarútvegi í dag eru talsvert aðrar en þær sem áttu við þegar þessi mál voru rædd á sínum tíma fyrir kannski 15–20 árum eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson staðfesti hér hvað varðaði afstöðu sína (Forseti hringir.) til þessara mála á fyrri tíð og nú í dag.