140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:25]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í þeirri umræðu um það frumvarp sem hér er til 2. umr., þ.e. veiðigjöld, hefur margt komið fram. Mér finnst eftir sem líður á daginn sem þetta sé að verða yfirvegaðri og málefnalegri umræða. Við hlustuðum á menn tala hressilega um frumvarpið í byrjun, en þegar við förum að kryfja það og ræða á málefnalegan hátt skilur að mínu mati ekkert svo voðalega mikið á milli manna og flokka. Það kemur ekkert sérstaklega á óvart vegna þess að grunnur þessara frumvarpa er skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem var skilað í september 2010. Hann var meðal annars skipaður fulltrúum allra flokka sem þá áttu sæti á Alþingi og hagsmunaaðila eins og LÍÚ, Landssambands smábátaeigenda og útgerðarmanna. Allir skrifa upp á þetta nema tveir.

Þarna eru nokkur grunnstef sem lagt er upp með sem ég ætla ekki að fara í gegnum í upphafi ræðu minnar, heldur segja að margt af því sem hér er sett fram er mjög í takt við það. Þess ber auðvitað að geta að í tillögum sáttanefndar voru ekki mjög miklar útfærslur á nokkrum atriðum, jafnvel nokkuð mörgum atriðum sem hér er verið að fjalla um. Það kemur meira hér.

Ég hef lesið í gegnum bókanir þeirra sem hafa gagnrýnt hvað mest þetta frumvarp og hitt frumvarpið um stjórn fiskveiða, þ.e. bókanir fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég hef líka lesið stefnu Framsóknarflokksins sérstaklega og þess vegna segi ég að þetta harmónerar mjög vel saman. Það er ekkert langt á milli.

Grunnurinn í þessum frumvörpum er sem sagt úr þessu og enn einu sinni er Alþingi að takast á við það að mynda sem mesta sátt um fiskveiðistjórnarkerfið til frambúðar sem er ákaflega mikilvægt fyrir land og þjóð, útgerðina og almenning í landinu. Það verða aldrei aftur óheftar veiðar á Íslandi. Auðlindin er takmörkuð og við þurfum að ganga um hana með gát, þess vegna er sú rómantík búin að hver og einn geti veitt eins og hann getur og hefur kunnáttu til, við höfum marga til þess, það er bara liðin tíð. Þessu þarf að stjórna. Þess vegna er þetta kvótakerfi. Um það hafa verið miklar deilur og þess vegna hika ég ekki við að halda því fram að allir flokkar hér á Alþingi standa nú fyrir því prófi hvort við getum náð hér sem víðtækastri sátt um þessi mál. Ég hef alla tíð talað fyrir því að það sé mjög mikilvægt að það sé gert.

Ef menn fara út úr hinum pólitíska gír þess tíma sem er, kjörtímabilið langt komið og ríkisstjórn með tæpan meiri hluta o.s.frv., ef við leyfum okkur að halda áfram málefnalegri umræðu og leita leiða til að sameinast um þessi frumvörp, hika ég ekki við að halda því fram að það sé hægt. Hér hefur verið gagnrýnt að ekki sé tekið tillit til þeirra fjölmörgu umsagnaraðila sem komu til hv. atvinnuveganefndar á um 20 fundum. Það er ekki alveg rétt, hér eru boðaðar miklar umræður um það frumvarp sem hér er á dagskrá, þ.e. veiðigjöldin.

Í upphafi máls míns langar mig að lesa hér, með leyfi forseta, upphafsorð formanns stjórnar HB Granda á síðasta aðalfundi, mjög ánægjulega lesningu, svohljóðandi:

„Í þau 24 skipti, sem ég hef staðið hér í þessum stað í sama hlutverkinu, hefur sjaldan verið eins ánægjulegt að hefja lesturinn og einmitt nú. Árið, sem er að baki, skilaði okkur langhæstum hagnaði í sögu félagsins. Hreinn hagnaður (þ.e. hagnaður eftir frádrátt tekjuskatts) nam 37,3 milljónum evra. Arðsemi eigin fjár telst hafa verið 26,4%. Þetta eru myndarlegar tölur. Og ólíkt því sem var árið á undan þá brenglar það lítið hagnaðartöluna, að tekjuskattur í evruuppgjöri okkar er reiknaður út frá uppgjöri í íslenskum krónum. Í krónum talinn nam hagnaðurinn 6.006 milljónum. Næstbesti árangur um afkomu náðist árið 2002, sem skilaði bara tæplega 3.200 millj. kr. og er þá mælt í krónum með sama kaupmátt í báðum tilvikum. Arðsemi eigin fjár fór þá upp fyrir 40%.“

Virðulegi forseti. Ég er ekki að lesa þetta til að agnúast út í þessar tölur. Þetta er vel rekið fyrirtæki. Ég hika ekki við það að halda því fram og er algjörlega sammála því, eins og allir auðvitað, að það er grundvallaratriði í rekstri fyrirtækja að þau skili hagnaði, skili hluthöfum sínum arði, geti borgað starfsfólki sínu góð laun, geti borgað góða skatta til ríkisins og eflt sig og þróast á sem arðbærastan hátt. Þetta fyrirtæki hefur sannarlega gert það í tiltölulega litlu byggðarlagi á norðausturhorni, þ.e. Vopnafirði, þar sem hefur verið glæsileg uppbygging. Þetta fyrirtæki borgaði á árinu 2011 um 440 millj. kr. í veiðileyfagjald. Á sama tíma voru greiddar um 700 millj. kr. í arð. Eins og ég tek fram er þetta ekki sett fram til að agnúast í það, þetta er aðeins sett fram til að sýna fram á það sem hér hefur komið fram, að staða sjávarútvegs er góð, skilar miklum hagnaði þó að hluti af því sé auðvitað út af lágu gengi krónunnar sem svo allur almenningur ber kostnaðinn af.

Það hefur komið fram á Alþingi, m.a. í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að Sjálfstæðisflokkurinn vill hækka veiðileyfagjald. Framsóknarflokkurinn hefur á sinni stefnuskrá að innheimta hóflegt veiðileyfagjald. Við eigum eftir að komast að skilgreiningu um hvað hóflegt veiðileyfagjald er. Ég hef í dag spurt stjórnarandstæðinga hvað sé hóflegt veiðileyfagjald af 75 milljarða kr. framlegð frá síðasta ári sem er rauntala, ekki gömul tala frá 2010 eins og unnið er með gagnvart útreikningi á veiðileyfagjöldum. Eru það 15 milljarðar, 20%? Það er spurning. Sitt sýnist hverjum. (Gripið fram í.) Er kannski hóflegt veiðileyfagjald 13 milljarðar eða 17? Vafalaust er hægt að halda áfram diskútera það.

Það sem ég vil segja, virðulegi forseti, er að þessi tillaga hér er hækkun veiðileyfagjalds um 10,5 milljarða kr., ekki 15, vegna þess að útgerðin borgar í dag um það bil 4,5 milljarða.

Það er mikilvægt að hafa það í huga sem þessir tveir flokkar hafa sagt um þessi mál og útfærslu þeirra. Ég tek heils hugar undir það sem hér hefur komið fram. Auðvitað verðum við að horfa á þessi tvö frumvörp í samhengi við hvaða breytingar verða gerðar á fiskveiðifrumvarpinu. Þær breytingar eru komnar fram varðandi veiðileyfagjöldin og auðvitað verður að skoða þetta í samhengi vegna þess að við ætlum áfram að reka sem arðbærastan sjávarútveg á Íslandi eins og meginmarkmiðin eru og stefna allra flokka, en við ætlum að láta þjóðina fá hæfilegt auðlindagjald eins og þjóðin á að fá af öllum öðrum sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, sama hvort það eru fjarskiptarásir, hitinn í iðrum jarðar, vatnsföll, raforkan eða annað.

Þá kem ég að þeim breytingartillögum sem gerðar eru við frumvarpið vegna þess að það er alveg rétt sem komið hefur komið fram, í skýrslu þeirra sérfræðinga sem atvinnuveganefnd var öll sammála um að fá til liðsinnis við að rýna í þetta frumvarp fékk það frekar slæmar móttökur. Það verður að segjast alveg eins og er. Það var aðallega byggt á því, virðulegi forseti, að verið væri að vinna með gamlar tölur úr rekstri fyrirtækja, þ.e. frá 2010, að það væri verið að blanda saman nokkrum vísitölum o.s.frv. Við þessu hefur verið brugðist. Mér er engin launung á því að ég er algjörlega sammála því að það er ekkert sérstakt að vinna í nútímaþjóðfélagi úr tveggja ára gömlum gögnum til skattheimtu. Það er eitthvað að í tölfræði okkar á Íslandi og opinberum gögnum þegar ekki er hægt að fletta þessu upp þremur, fjórum mánuðum eftir að viðkomandi rekstrarári lýkur. Kemur strax upp í huga mér að á fyrstu dögum hrunsins haustið 2008 var hvergi hægt að fá upplýsingar um skuldastöðu almennings í landinu, hvorki í íbúðarhúsnæði né öðru. Það er sama með þetta hérna, hér er verið að tala um gamlar tölur sem er mjög óæskilegt. Það hefur verið tekið sem dæmi að árið 2010 gæti hafa verið metveiði í uppsjávarafla sem kemur inn í bókhaldið þar og er þá grunnur að því sem verið er að leggja á 2012, en það getur hafa dottið niður öll veiði í því árið 2012 þegar á að greiða.

Við þessu er reynt að bregðast í þessu frumvarpi með því að fela ráðherra að gera þjónustusamning við Hagstofu Íslands og ríkisskattstjóra um öflun og úrvinnslu upplýsinga um rekstur og afkomu veiða og vinnslu sem veiðigjaldsnefnd þarf til að sinna verkefnum sínum.

Þetta er mikilvægt atriði og vonandi verður það gert á þann hátt að við fáum nýrri gögn.

Virðulegi forseti. Nú, 1. júní, er ég alveg sannfærður um að 95 eða 98% allra sjávarútvegsfyrirtækja eru löngu búin að gera upp og gætu þess vegna skilað skattframtölum til ríkisskattstjóra ef þau þyrftu þess ekki fyrr en 1. september. Í mínum huga getur alveg komið hér til álita í þessu dæmi að hreinlega skipta á þannig að lögaðilar verði látnir skila skattframtali, a.m.k. hluti þeirra, fyrr á árinu en gert er og einstaklingar kannski síðar. Svo vil ég minna á að við nútímatölvutækni og annað slíkt er farið að gera þetta miklu fyrr en áður.

Hér er líka í breytingartillögu gert ráð fyrir því að 30/100 tonna afsláttur verði ekki á hvert skip heldur hvern gjaldskyldan aðila. Þar er nefndin að reyna að koma til móts við það sem hún hafði á tilfinningunni að væri að gerast og frétti úr kerfinu að menn mundu bregðast við með því að skipta kvóta niður á fleiri skip til að fá þennan afslátt. Þarna á að koma í veg fyrir það. Þetta er dæmi um hvað skoðað er í ýmsum kerfum að Alþingi er rétt byrjað að fjalla um það þegar menn fara að leita leiða um hvernig hægt er að komast fram hjá því án þess að það sé ólöglegt.

Þarna er brugðist við með að taka inn orðin verðvísitölu sjávarafurða í staðinn fyrir orðin aðrar vísitölur og verði notað til uppreiknings og að framtölin sem notuð verða verði reiknuð fram að janúar til apríl fyrir ákvörðun veiðigjaldsins ár hvert.

Þarna er líka brugðist við því að hafa árgreiðsluna bara 8% á allt saman, bæði fiskveiðiár og fiskvinnslu, en ekki 8% og 10% eins og var. Þarna er sett inn grein frá nefndinni, þ.e. ef rentan er neikvæð komi hún til frádráttar eins og skattalegt tap. Eru þetta ekki breytingar sem ég hef verið að telja hér upp?

Í bráðabirgðaákvæðunum er síðan í fyrsta sinn sett fram útreiknuð tala út frá tölunum 2010 með þessum vísitöluframreikningi og því sem hér er boðað í frumvarpinu og tölum í janúar og apríl á þessu ári þannig að sérstaka veiðigjaldið er 29,13 kr. á hvert þorskígildiskíló í botnfiski og 33 kr. á þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum á fiskveiðiárinu 2012/2013.

Svo eru boðaðar frekari prósentuhækkanir á næstu fjórum árum þar á eftir og ég get alveg sagt að mér kæmi ekkert á óvart að þegar reynsla verður komin af þessari gagnasöfnun og þessum útreikningum verði það gert og þá þurfum við að breyta jafnvel tölum sem þarna eru inni þegar ný gögn koma fram.

Þetta ákvæði a-liðarins gerir það að verkum að heildarveiðileyfagjöld á næsta fiskveiðiári verða 15 milljarðar kr., þ.e. 10,5 milljarðar í sérstöku veiðileyfagjaldi og svo aftur 9,50 á hvert þorskígildiskíló sem gerir um 4,5 milljarða í almenna gjaldinu.

Síðan kemur þarna inn nýtt ákvæði um að á næstu fimm fiskveiðiárum geti skuldsett félög vegna kvótakaupa átt rétt á lækkun vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeildum til 1. júní í ár, til dagsins í dag eins og hefur komið fram. Þarna kemur nefndin til móts við þær upplýsingar sem hún fékk við þinglega meðferð málsins, það er ekki hægt að hafa eina reglustikuaðferð á alla í raun og veru. Það þarf að taka tillit til krókaaflamarksbáta þar sem kvótakaup hafa verið mikil undanfarin ár og þar sem þær útgerðir eru mjög skuldsettar og bera háan vaxtakostnað vegna kvótakaupa er sett inn frá nefndinni reikniregla um afslátt vegna þessara vaxtaberandi skulda sem kemur til lækkunar á sérstaka veiðileyfagjaldinu.

Í nefndarálitinu eru útreikningar sem eru þá auðvitað lögskýringargagn og fylgigagn fyrir veiðileyfanefnd um að hér sé það áætlað um 1,5 milljarðar kr.

Auðvitað ítreka ég það enn einu sinni, virðulegi forseti, að þegar þessi gömlu gögn verða reiknuð upp og veiðigjaldsnefnd fer að vinna með þau og útgerðir fara þá að sækja um þann afslátt sem þau eiga rétt á vegna vaxtakostnaðar af kvótakaupum verði þessi tala til lækkunar þar.

Það hefur komið fram á fundum nefndarinnar að þetta gæti jafnvel leitt til þess að allir krókaaflamarksbátar á næsta fiskveiðiári muni ekki borga krónu í sérstakt veiðileyfagjald vegna þessa ákvæðis sem svo auðvitað mun gírast niður á komandi árum.

Þess vegna segi ég það, virðulegi forseti, að ég er undrandi þegar fulltrúar stjórnarandstöðunnar tala um að ekki hafi verið gerðar breytingar á þessu frumvarpi og að illa hafi verið farið með tíma þeirra gesta sem komu til fundarins. Ég mótmæli því, það var mjög vel hlustað á og vel unnið í nefndinni við að taka á móti gestum og umsagnaraðilum sem lögðu fram mörg gögn. Þar kom þetta fram. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar þetta frumvarp hér er rætt nú við 2. umr.

Ég ætla svo að ítreka það sem ég sagði áðan um tölfræði Hagstofunnar vegna sjávarútvegs. Hagstofan kom mjög snemma til fundar við nefndina. Ég leyni því ekki að mér brá dálítið við þær upplýsingar sem þar komu fram vegna þess hvað það tekur langan tíma fyrir Hagstofuna að fá þau gögn sem þarf frá ríkisskattstjóra úr ársreikningum félaga sem félögin eiga að skila til að búa til þá tölfræði sem verður grunnurinn að þessari útreikningsaðferð. Þetta er flókið, þetta er þunglamalegt og óljóst í byrjun en þegar veiðigjaldsnefnd fer að vinna hygg ég að hún muni búa til góðan gagnabanka hvað þetta varðar sem verður hægt að byggja á.

En mér er engin launung á því, virðulegi forseti, að ég hef skoðað og bent á að það voru til aðrar og miklu betri og einfaldari leiðir. Einn maður sem skoðaði þá útreikninga og þá aðferð kallaði þetta staðgreiðslukerfi veiðileyfagjalda. Það var kannski réttnefni. En vonandi tekst Hagstofunni, ríkisskattstjóra og veiðigjaldsnefnd að búa til betri gögn sem hægt er að byggja á. Þau gögn höfum við í Hagtíðindum sem voru gefin út 25. janúar 2012 og þau sýna hag veiða og vinnslu fyrir árið 2010. Því miður eru gögnin þetta gömul.

Virðulegi forseti. Nokkrir gestir sem komu til nefndarinnar, m.a. fulltrúar frá útgerðinni, andmæltu því að fara þessa leið og vildu fá hreinni og einfaldari leið. Eins og kom fram á fundum nefndarinnar var meðal annars rætt um það hvort ekki væri hægt að gera þetta í gegnum tekjuskattskerfið, jafnvel hafa hærri tekjuskatt á sjávarútvegsfyrirtæki en önnur. Við í nefndinni öfluðum okkur upplýsinga frá fjármálaráðuneytinu um tekjuskattsgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja frá árinu 1999. Meðaltalstekjuskattsgreiðslur allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi þessi ár eru um það bil 1,3 milljarðar kr. Álagningarárið 2011 fyrir rekstrarárið 2010 voru greiddir 2,7 milljarðar kr. í tekjuskatt af höfuðatvinnuvegi Íslands.

Hins vegar hefur það líka komið fram núna, ekki á fundum nefndarinnar en þær upplýsingar hef ég fengið, að vegna þess hve langt er komið með uppgjör allra stærstu og þýðingarmestu sjávarútvegsfyrirtækjanna á Íslandi, þeirra sem vigta mest í heildartölunum, megi reikna með 4–5 milljörðum kr. í tekjuskatt á þessu ári fyrir rekstrarárið 2012. Að mínu mati er ekki hægt að fara þessa leið með tekjuskattskerfið. Ég vil frekar hafa það, eins og hér er talað um, með auðlindarentu sem við komumst vonandi að niðurstöðu um hver á að vera, bæði upp á prósentustig og skattstofn, hóflegt veiðileyfagjald, vegna þess að það er nauðsynlegt að þetta sérstaka veiðileyfagjald taki sveiflum eftir afkomu í greininni. Eins og einhver ræddi hér áðan benti ASÍ á fundum nefndarinnar á að ef gengið styrkist um 20% mætti sjá hve mikil áhrif það mundi hafa á veiðileyfagjöldin. Þá er það bara eðlilegt ásamt því sem kemur hér fram í breytingartillögu nefndarinnar um hið neikvæða auðlindagjald ef svo ber undir.

Virðulegi forseti. Mér hefur orðið tíðrætt hér um aðferðafræðina og þau gögn sem við höfum úr að spila hvað þetta varðar. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, það er ekki hægt, hvorki hvað þetta varðar né annað í þjóðfélaginu, að stofnanir ríkisins skuli ekki hafa þessar upplýsingar nánast uppfærðar frá degi til dags, nýjustu tölur miðað við síðasta rekstrarár, nýjustu tölur miðað við afkomu og skuldir einstaklinga o.s.frv. Við í atvinnuveganefnd höfum hins vegar fengið ansi mikið af gögnum úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu sem fulltrúar þar hafa unnið upp úr ársreikningum rúmlega 400 fyrirtækja eins og kom fram síðast. Það eru ákaflega athyglisverð gögn. Ég hygg að þau gögn séu öll komin inn á vef Alþingis sem fylgiskjal með þessu máli vegna þess að allt hefur verið sett þar inn eins og það sem ég var að ræða hér um tekjuskattinn áðan, eins og greitt veiðileyfagjald hjá öllum útgerðum á Íslandi. Það eru í kringum 1.150 útgerðir sem greiddu veiðileyfagjald á síðasta ári.

Í töflu um áætluð veiðigjöld og tekjur af þeim fyrir kvótaárið 2012/2013 er talað um þessar grunntölur, almenna veiðigjaldið, 9,50, sérstakt veiðigjald botnfisks, 29,13, sérstakt veiðigjald uppsjávarafla, 33,08, og gefur almenna gjaldið 4,4 milljarða kr., sérstaka gjaldið mun gefa af botnfisksafla 11,5 milljarða kr. og uppsjávarafli mun gefa 2,4 milljarða kr., samtals 18,3 milljarða kr., en frá því dregst hið almenna veiðileyfagjald sem er 4,4 milljarðar kr. Áætlaðar tekjur þetta ár og ívilnunin vegna kvótaskulda sem þarna kemur fram eru um 1.500 millj. kr. þannig að áætlaðar tekjur miðað við þær forsendur sem þarna var unnið eftir hafa vafalaust verið þær bestu tölur sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur getað komist í, um 15 milljarðar kr., þ.e. um 10,5 milljarðar í sérstaka veiðileyfagjaldið sem er þá nýtt gjald á næsta ári, eða nýr skattur eftir því hvað við viljum kalla þetta. Ég minni á að í kolvetnisgjöldunum er talað um skatt. Hið almenna gjald er þegar í dag 4,5 milljarðar kr. Svo getum við farið yfir það og séð í þessum gögnum hvernig það dreifist á hina ýmsu aðila og fyrirtæki eftir stærð. 20–25 stærstu fyrirtækin sem þeir sérfræðingar sem við leituðum til hafa sýnt okkur bera auðvitað langstærsta hlutann af þessu.

Vonandi er það þannig, virðulegi forseti, eins og ég sagði áðan að þær 1,5 milljarðar kr. sem er reiknað með sem afslætti vegna vaxtakostnaðar vegna kvótakaupa undanfarin ár, ekki endilega annarra kaupa eða í óskyldum fyrirtækjum, nýtist þá hinum skuldsettu krókaaflamarksbátum og er þá ívilnun eða hvað við viljum kalla inn í veiðileyfagjaldið sem við erum að byrja að setja fram hérna og þróa þannig að þeir geti vel unnið sig út úr þeim fjárhagslega vanda sem þeir eru í.

Það er mikið talað um hver áhrifin verði af fiskveiðifrumvarpinu og þeim breytingum sem þar eru boðaðar og breytingartillögum sem þegar liggja fyrir, og kannski eiga fleiri eftir að bætast við. Þá minni ég líka á að sem betur fer búum við það vel á Íslandi í dag að allar líkur eru á því að kvóti verði aukinn um að minnsta kosti 20–23 þús. tonn á næsta ári. Fyrirtæki sem hefur 10% aflahlutdeild má reikna með að fá í kringum 2.300 tonn og sá sem hefur 5% fær helminginn af því.

Þetta vil ég aðeins draga fram vegna þess að það hefur aldrei komið fram í umræðunni að þessi aukning gengur til handhafa aflahlutdeilda í dag í því hlutfalli sem þeir hafa mínus sú skerðing sem boðuð er, til að mynda leigupottinn sem boðaður er í fiskveiðifrumvarpinu sem talað er um að verði á fyrsta fiskveiðiári 20 þús. tonn sem fari þá á leigumarkað. Aðilar geta þá leigt frá sér og til sín sem nýliðun eða sem viðbætur í þann rekstur sem fyrir er. Við höfum líka séð í gögnum sem við höfum fengið frá fyrirtækjum sem hafa opnað reikninga sína og séð hvernig reksturinn er og hvernig gengur þar sem verslað er með eigin aflaheimildir sem keyptar hafa verið á undanförum árum og svo hins vegar hvernig það kemur út á þær aflaheimildir sem leigðar hafa verið á töluvert háu verði sem skila ekki miklu. Menn hafa sagst leigja þar kílóið á 350 kr. og við það bætast kannski einar 150 kr. í útgerðarkostnað og launakostnað við að ná í fiskinn. Það segir sig sjálft að það verður ekki mikil framlegð úr þeirri starfsemi.

Þessa vildi ég aðeins geta vegna þess að það er ákaflega mikilvægt að við höfum það í huga að hvort sem kvótaaukning í þorski verður á næsta ári 20 eða 25 þús. tonn, eða eitthvað þar á milli, deilist hún út til þeirra sem eru með í dag mínus það sem áætlað er að taka í þennan leigupott.

Nettó verður það ekki allt saman tekið af eins og umræðan er mest um. Hún hefur verið mest um það sem, eins og sumir segja, á að rífa af „okkur“, þeim sem hafa. Það hefur ekki verið talað um þessa miklu aukningu sem vænta má. Mínar upplýsingar eru þær að ástandið í hafinu sé þannig að við getum verið mjög bjartsýn fyrir kvótaaukningu á næstu árum.

Virðulegi forseti. Það hefur verið mjög góð vinna í atvinnuveganefnd hjá fulltrúum allra flokka við að taka á móti þeim gestum sem hafa komið á um 20 fundi frá því að byrjað var að ræða þetta mál. Nefndarmenn hafa lagt sig þar vel fram við að spyrja gesti og gestir hafa flutt mál sitt mjög vel, fylgt sínum umsögnum úr hlaði og svarað spurningum þingmanna. Þar hefur margt komið fram. Afrakstur af því er í breytingartillögunum sem meiri hluti nefndarinnar boðar við veiðigjaldið. Á Íslandi verður að byggja á því kerfi og þeirri aðferð sem boðuð var í frumvarpinu, þ.e. að nota tölfræði Hagstofunnar, svokallaða árgreiðsluuppgjörsaðferð og statistík sem hún tekur saman úr ársreikningum fyrirtækja og upplýsingum frá Fiskistofu. Haldbærari og betri gögn eru ekki til nema að menn hefðu farið í að byggja þetta á rauntímaupplýsingum og rauntímarekstri á hverju rekstrarári fyrir sig og tekið þetta eins og hver önnur staðgreiðsluskil, bara eins og þau sem eiga sér stað frá vinnustaðnum Alþingi fyrir starfsmenn Alþingis og alþingismenn, þar sem skilað er inn skatti og síðan er skattur lagður á hvern og einn. Svo kemur í ljós við álagningu hvort menn hafi ofgreitt eða vangreitt. Mismunurinn er þá innheimtur eða endurgreiddur.

Veiðigjaldsnefndar bíður mikið starf. Eins og ég sagði í upphafi máls míns á ráðherra að gera þjónustusamning við Hagstofuna og ríkisskattstjóra til að afla þeirra bestu gagna sem hægt er að hafa og þau verða grunnurinn að þessu gjaldi á næstu árum. Ég hef þá trú að þegar þessi gögn verða öll komin fram og verður búið að setja upp í góðan gagnabanka sem er forsenda fyrir útreikningi á veiðileyfagjaldi muni þar koma fram að þau áform sem hér eru sett fram til næstu ára séu jafnvel of há miðað við það veiðigjald sem boðað er að setja hér inn.

Það stendur í 1. og 2. gr. fiskveiðifrumvarpsins að það sé tryggt að þessi auðlind sé sameign þjóðarinnar. Við ætlum að skapa arðbæran og góðan sjávarútveg og engum manni dettur í hug, og menn eiga ekki einu sinni að láta sér detta það í hug í því orðaskaki sem er á Alþingi þar sem tekist er á um þessa hluti, að einhver stjórnmálaflokkur, einhver alþingismaður eða einhverjir aðilar séu með það í huga að koma fram með eitthvert kerfi til veiðigjaldainnheimtu sem setur hálfa eða alla greinina beint á höfuðið. Það er alls ekki ætlunin og þannig verður það heldur ekki. Spurningin snýst einfaldlega um það hvað sé hóflegt og sanngjarnt veiðileyfagjald þegar við byrjum þessa innheimtu á næsta fiskveiðiári. Eru það 13 milljarðar? Eru það 15 milljarðar? Eða eru það 17? Ég veit það ekki. Sitt sýnist hverjum.

Ég hef gert aðferðafræðina að umtalsefni. Hana á eftir að búa til og festa í sessi. Aðrar leiðir voru til. Síðan munum við strax á mánudag halda áfram að ræða um fiskveiðifrumvarpið og þær breytingartillögur sem nefndin hefur þegar lagt fram og vinna með þær og frekari upplýsingar sem eiga eftir að koma fram, m.a. í morgun en kláraðist ekki umræða um. Ég á enga ósk heitari en þá að þegar mesti hamagangurinn verður farinn úr þessari umræðu á fyrstu tveimur eða þremur dögunum, eða hvað það nú verður, munum við sjá að ekkert voðalega mikið skilur á milli hópa. Ef menn vilja er tiltölulega auðvelt að setjast niður og búa til tillögu sem sem mest sátt verður um þjóðinni og þessari atvinnugrein til heilla, að það verði búið til kerfi sem þurfi ekki að rífast um næstu 30 árin.